Markmið og framkvæmd
Heilsueflandi framhaldsskóli byggist á þeirri stefnu að nálgast heilsueflingu og forvarnir út frá víðtæku og jákvæðu sjónarhorni með það að markmiði að stuðla að vellíðan og auknum árangri allra í skólasamfélaginu, nemenda og starfsfólks.
Nálgunin veitir aukin tækifæri til að efla tengslin við nærsamfélagið og auka þannig stuðning og tækifæri nemenda og starfsfólks til að tileinka sér jákvæðan og heilbrigðan lífsstíl.
Heilsueflandi framhaldsskóli er ekki verkefni með upphaf og enda heldur nálgun sem nýtist í starfinu til framtíðar. Hver framhaldsskóli vinnur á þeim hraða sem þeim hentar og reiknað er með að skólinn taki sér allt að ár í undirbúning.
„Með markvissu heilsueflingarstarfi í framhaldsskóla er nemendum og starfsfólki skapaðar aðstæður til að blómstra í leik og starfi“
Lögð er áhersla á nokkur viðfangsefni, þ.e. hreyfingu, næringu, geðrækt, tóbak-, rafrettur, áfengi og vímuefni, jafnrétti, kynheilbrigði og öryggi.
Auk þess eru tvö viðfangsefni um starfsfólk annars vegar og verklag hins vegar.
Fjölmargar rannsóknir styðja þessa nálgun enda sýna þær að heilsueflandi umhverfi bætir líðan nemenda, stuðlar að bættum námsárangri og dregur úr brottfalli.
Undirbúningsvinnan felst í því að
-
mynda stýrihóp
-
skoða stöðu skólans
-
gera grunn að heilsustefnu
-
fylla út í gátlista á lokuðu vefsvæði sem þátttökuframhaldsskólar hafa aðgang að. Þar getur hver og einn skóli metið eigin stöðu og í framhaldinu haldið utan um markvisst heilsueflingarstarf.
-
Hér má sjá viðmið Heilsueflandi framhaldsskóla í formi gátlista sem framhaldsskólar vinna með.
Þátttaka er framhaldsskólum að kostnaðarlausu og ekki þörf á undirbúningsvinnu áður en sótt er um.
Að sækja um felur í sér að skólinn hefur einsett sér að vinna markvisst að heilsueflingu í sínum framhaldsskóla og að skólastjórnendur staðfesti það með undirskrift umsóknar. Eftir að umsókn er móttekin, hjá embætti landlæknis, fær skólinn sendan aðgang að heilsueflandi.is auk ýmissa upplýsinga til þess að hjálpa þeim að hefja vinnuna.