Fara á efnissvæði

Jafnrétti

Almennt er Ísland talið vera framarlega þegar kemur að jafnréttismálum. Hinsvegar hallar enn á konur í ýmsum störfum og þær bera gjarna enn meiri ábyrgð á rekstri heimila sem dæmi. Jafnrétti snýst þó ekki einungis um kynin heldur einnig rétti fólks til að verða ekki fyrir fordómum vegna fötlunar, kynhneigðar, holdarfars eða annarra þátta.

Framhaldsskólar geta haft mikil áhrif til að styðja við jafnrétti meðal annar með kennslu og að skapa ytri og innri aðstæður þannig að raddir allra fái að njóta sín. Sem dæmi þarf að gæta að kynjahlufalli í nefndum og ráðum innan skólans og að margbreytileiki sé virtur innan skólasamfélagsins. Þá þarf starfsfólk skólans að ganga á undan með góðu fordæmi er varðar orðræðu og framkomu.

Vekja þarf ungt fólk til umhugsunar um jafnrétti í víðum skilningi og þeirra eigin hegðun í því samhengi. Hægt er að nýta ýmis verkfæri til þeirrar vinnu og má þar nefna ritröð um grunnþætti menntunar en einn þeirra snýr sérstaklega að jafnrétti.

 

 

 

Kynheilbrigði 

Kynheilbrigði varðar bæði kynlífs- og frjósemisheilbrigði og er hluti af heilbrigði hvers einstaklings sem hefur áhrif á velferð hans. Kynheilbrigði flestra ungmenna hér á landi má teljast gott en ýmislegt mætti þó betur gera eins og samanburður við Norðurlöndin og ýmis ríki Evrópu er til vitnis um. Kynsjúkdómar eru algengari hér á landi en á Norðurlöndunum.

Þar sem foreldrar eru gjarnan miklir áhrifavaldar í lífi barna og ungmenna þarf að bjóða þeim upp á fræðslu um kynheilbrigðismál. Það eflir öryggi foreldranna og þar með bætt samskipti um þessi málefni sem skipta börn og ungmenni miklu.

Einnig þarf að tryggja ungu fólki vandaða fræðslu um eigið kynheilbrigði í framhaldsskólum. Skólakerfið er mikilvægt í þessu efni því að þar er hægt að ná til allra unglinga út frá mismunandi þroskastigum. Með markvissri fræðslu og viðhorfsvinnu í skólum er von til þess að unglingarnir verði meðvitaðri um eigin líkama, tilfinningar og samskipti og öðlist gagnrýni á utanaðkomandi áhrif og þrýsting. Þar með ættu þeir að geta varast betur mögulegar neikvæðar afleiðingar kynlífs.

Hlúa þarf vel að fjölskyldum og börnum á uppvaxtarárum þeirra. Á þann hátt stuðlum við að jákvæðum þroska ungmenna og ungs fólks og eflum sjálfsmynd þess og vellíðan. Hægt er að draga úr kynsjúkdómasmiti, m.a. með góðu aðgengi að smokkum sem er eina vörnin gegn slíku smiti. Einnig þarf að tryggja ungu fólki ókeypis aðgang að skoðun, greiningu og meðferð kynsjúkdóma á heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum og veita aðgengi að getnaðarvörnum, fræðslu og ráðgjöf þar að lútandi.