Fara á efnissvæði

Nemendur í framhaldsskólum verja stórum hluta dagsins í skólanum og því er mikilvægt að þau eigi þar kost á hollum og góðum mat. Samkvæmt lögum um framhaldsskóla þá ber skólum að tryggja að í boði sé innan veggja hvers skóla heilnæmt fæði í samræmi við opinberar ráðleggingar Embættis landlæknis. Mikilvægt er að skólastjórar móti heilsustefnu þar kem komið er inn á mikilvægi næringar og sjái til þess að hollur kostur sé til staðar í mötuneyti skólans. Þetta á við hvort sem  reksturinn er í höndum skólans en einnig þegar utanaðkomandi aðili rekur mötuneytið en þá er sérstaklega mikilvægt að gera kröfur um hollustu því skólinn ber ábyrgð á að lögum sé fylgt.

 

Með heildrænni heilsustefnu sem kemur inn á mikilvægi næringar í skólum er hægt að stuðla að góðum neysluvenjum ungmenna og starfsfólks og þannig má betur stuðla að bættri heilsu og vellíðan ungmenna. Mikilvægt er að skapa aðstæður í skólanum sem hvetja til heilbrigðra lifnaðarhátta þannig að holla valið verði auðvelda valið. Æskilegt er að skólinn útnefni sérstakan starfsmann sem ber ábyrgð á að fylgja eftir stefnu í næringarmálum.

 

 

Almennt er lögð áhersla á eftirfarandi atriði:

 

  • Í heilsustefnu skólans er kveðið á um heilnæmt fæði í samræmi við lög um framhaldsskóla og aðalnámskrá. Heilsustefna skólans á sviði næringar tekur mið af ráðleggingum Embættis landlæknis um mataræði.

 

  • Aðstæður í skólanum stuðla að því að holla valið sé auðvelda valið (aðgengi, verð, framboð) með því að auka aðgengi að hollum mat og takmarka framboð á óhollustu. Sérstaklega má benda á að bæta aðgengi að grænmeti, ávöxtum, heilkornavörum og köldu drykkjarvatni og draga úr framboði á orkudrykkjum, gosdrykkjum, sælgæti og snakki sem ekki á að selja innan veggja heilsueflandi skóla.

Handbók um næringu í framhaldsskólum er til grundvallar fyrir þessa vinnu, ásamt gátlista sem skólar hafa til viðmiðunar fyrir þennan málaflokk. Að auki má benda á efni tengt ráðleggingum um mataræði sem Embætti landlæknis hefur gefið út.