Rétt eins og á öðrum aldursskeiðum er mikilvægt að huga að öryggi ungmenna á framhaldsskólaaldri. Á þessum aldri búa þau oft yfir meira sjálfræði en áður, sum fara langa leið til að komast í skólann og flytja jafnvel að heiman til að sækja nám. Þegar kemur að öryggi er mikilvægt að huga að ytri þáttum svo sem skólahúsnæði, skólalóð og aðstæðum öllum. Á þessum aldri geta ungmenni upplifað að þau ráði við hvað sem er og þurfi ekki að huga að öryggisbúnaði svo sem reiðhjólahjálmum, nú eða kanna færð áður en lagt er af stað í ferð.
En öryggi felur í sér meira en slysavarnir og á þessum aldri er mikilvægt að huga að viðhorfum og hegðun í samskiptum við annað fólk. Skólinn getur komið að þessu með því að skapa umhverfi þar sem nemendur upplifa að þau eru örugg. Það má til dæmis gera með því að skapa góðan skólabrag, vinna markvisst að uppbyggilegum samskiptum og hafa sýnilegar upplýsingar og verkferla bæði er varðar samskipti og hvað er gert ef eitthvað fer úrskeiðis.
Mikilvægt er að fræðsla eigi sér stað um einkenni og afleiðingar ofbeldis, ekki bara til starfsfólks heldur einnig til nemenda og foreldra.
Þegar unnið er að öryggi í framhaldsskólum er mikilvægt að horfa einnig til þess að koma í veg fyrir áfengisneyslu en tengsl áfengis bæði við slys og ofbeldi eru vel þekkt. Hafið þó í huga að áfengi er aldrei afsökun og vinna verður að ofbeldisforvörnum með víðtækum hætti.