Heilsa og vellíðan
Heilsueflandi framhaldsskóli byggist á þeirri stefnu að nálgast heilsueflingu og forvarnir út frá víðtæku og jákvæðu sjónarhorni með það að markmiði að stuðla að vellíðan og auknum árangri allra í skólasamfélaginu, nemenda og starfsfólks. Nálgunin veitir aukin tækifæri til að efla tengslin við nærsamfélagið og auka þannig stuðning og tækifæri nemenda og starfsfólk til að tileinka sér jákvæðan og heilbrigðan lífsstíl.
Samkvæmt Aðalnámsskrá framhaldsskóla (2011) er Heilbrigði og velferð nú einn af sex grunnþáttum menntunar. Þátttaka í Heilsueflandi framhaldsskóla styður skóla í að innleiða þennan grunnþátt í öllu sínu starfi. Heilsuefling í skólaumhverfi er byggð á Ottawa sáttmála Alþjóðaheilbrigðisstofnunar (WHO).
Áhersluþættir Heilsueflandi framhaldsskóla eru byggðir á sex viðfangsefnum, þ.e. næringu, hreyfingu, geðrækt, tóbak- áfengi og vímuefni, jafnrétti og kynheilbrigði og að lokum öryggi. Auk þess eru tvö viðfangsefni um starfsfólk annarsvegar og verklag hinsvegar.
Fjölmargar rannsóknir styðja þessa nálgun enda sýna þær að heilsueflandi umhverfi bætir líðan nemenda, stuðlar að bættum námsárangri og dregur úr brottfalli.
Nálgunin býður upp á að stefna skólans innihaldi forvarnir og heilsueflingu sem gerir framhaldsskólum kleift að marka sér skýra stefnu, skerpa á aðgerðaráætlunum og forvörnum og jafnframt mynda á hagnýtan hátt skýran ramma utan um þennan almenna málaflokk.
Nálgunin var þróuð í samráði við þáverandi mennta- og menningarmálaráðuneytið, velferðarráðuneytið og Samband íslenskra framhaldsskólanema undir formerkjum "HOFF".
Viðmiðurnarlistar eru þróaðir af stýrihóp sem tekur faglegt tillit til þess sem nálgunin felur í sér, og eru jafnframt að hluta til unnir í samvinnu við skólana vegna umhverfis, aðstæðna og áherslna skólanna og hafa verið rýndir af stjórnendum í framhaldsskólum